
Algengar spurningar um loft í loft varmadælur
Er ráðlegt að taka niður alla rafmagns þilofna þegar sett hefur verið upp loft í loft varmadæla?
Nei, varmadælan er orkusparandi viðbót við núverandi hitagjafa byggingarinnar, það gæti þurft að nota hita frá ofnum í herbergjum sem eru mjög langt frá varmadælunni eða þegar mjög kalt er úti og varmadælan nær ekki að anna óskuðu hitastigi. Einnig ber að hafa í huga að herbergi sem eru að jafnaði lokuð t.d fataherbergi, geymslur eða salerni þurfa annan orkugjafa þar sem varmadælan nær ekki að hita þar inni.
Mörg eldri hús eru hönnuð þannig að í þeim eru mörg lokuð rými og því erfitt að ná jafnri dreifingu hita með loft í loft varmadælu í þeim tilvikum er rétt að leita ráðgjafar reyndra uppsetningaraðila til að reyna að finna rétta staðsetningu innihluta dælunnar og jafnvel skoða hvort rétt sé að nota loft í vatn varmadælu sem nýtir hefðbundna vatnshitaofna.
Í öllum tilvikum er ráðlagt að hafa lágmarksfjölda ofna tiltæka í húsnæðinu til að forðast frostskemmdir ef varmadælan stoppar af einhverjum orsökum. Ofnana er þá best að stilla á u.þ.b. 7°C svo að þeir kveiki aðeins á sér í neyðartilvikum.